Óstöðugleiki hefur einkennt alþjóðlega hlutabréfamarkaði í dag en fjárfestar hafa beðið með óþreyju eftir því hvaða örlög bíða George Papandreú, forsætisráðherra Grikklands. Mesta áhyggjuefnið er hvort Grikkir fari í gegnum björgunaráætlunina eins og á þá var lagt. Geri þeir það ekki eru miklar líkur á að þeir snúi baki við lánardrottnum sínum sem í síðustu viku ákváðu að gefa eftir helminginn af skuldum gríska ríkisins. Í kjölfarið kann svo að fara að gríska ríkið geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.

AP-fréttastofan segir fremur daprar tölur um atvinnuleysi gera illa verra en greint var frá því fyrr í dag að atvinnuleysi í Bandaríkjunum stæði enn í 9%.

Það sem af er dags hefur Dow-vísitalan lækkað um 1,16% og Nasdaq-vísitalan um 0,79%. Svipaða sögu er að segja af stærstu hlutabréfamörkuðum í Evrópu. Þar hefur FTSE-vísitalan í London lækkað um 0,34%. Svartsýnin er öllu meiri í stærstu löndum ESB; DAX-vísitalan í Þýskalandi hefur fallið um 2,63% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi fallið um rétt rúm 2,0%.

Hlutabréfavísitölur vega salt á Norðurlöndunum. Aðalvísitalan í Stokkhólmi hefur hækkað um 0,75% og vísitalan í Kaupmannahöfn hækkað um 0,32%. Á sama tíma er 2,7% fall á hlutabréfamarkaði í Finnlandi og 0,4% lækkun á markaðnum í Osló í Noregi.

Úrvalsvísitalan hér hefur lækkað um 0,35%. Þar af hefur gengi hlutabréfa í Icelandair Group fallið um 4,0%.