„Ég er almennt andvígur kvótum af hvaða tagi sem þeir nefnast. En hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja hefur verið alltof lágt og með kynjakvótum er líklegra en ella að leitað verði út fyrir kunningjahópinn eftir stjórnarmönnum. En það eitt og sér leiðir ekki sjálfkrafa til betri stjórnarhátta,“ segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.

Páll var með erindi á þéttsetnum fundi um fjölbreytni í forystu og góða stjórnarhætti á vegum Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulífsins, efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og fleiri í morgun. Á sama tíma kom út 4. útgáfa af leiðbeiningum Viðskiptaráðs um stjórnarhætti fyrirtækja.

Páll benti á að fyrir hrun hafi stjórnir fyrirtækja verið fremur einsleitar og faglegt sjónarmið við val á stjórnarmönnum hugsanlega ekki ráðið för. Stjórnirnar hafi samanstaðið af körlum á svipuðum aldri með keimlíkan bakgrunn og menntun. Stefnan hafi falist í útrás og allt kapp lagt á hana. Hann benti á að þau fyrirtæki sem hafi tileinkað sér góða stjórnarhætti fyrir hrun hafi komið betur undan því, a.m.k. Marel og HB Grandi sem skráð eru á hlutabréfamarkað. Raunávöxtun þeirra nam 10% á ári á meðan önnur hrundu, samkvæmt honum.

„En kynjakvótar leiða ekki sjálfkrafa til betri stjórnarhátta og tryggja breidd í rekstri fyrirtækja,“ sagði hann og mælti með því að fyrirtæki landsins láti gera úttekt á stjórnum sínum.

„Það er jafnframt mikilvægt að fjárfestar verði vakandi fyrir góðum stjórnarháttum. Ef fjárfestar leggja línurnar þá er að minnsta kosti hálfur sigur unninn,“ segir hann.