Gleðin ríkti í byrjun dags í helstu kauphöllum heimsins með aðgerðir sex stórra seðlabanka í gær. Bankarnir tóku höndum saman og gerðu á milli sín gjaldmiðlaskiptasamninga sem á að slá á lausafjárvandræði banka og fjármálastofnana í Evrópu. Þegar á leið er sem fjárfestar hafi rankað við sér og munað eftir skuldakreppunni á evrusvæðinu en við það lækkuðu helstu vísitölur í Evrópu eftir snarpa byrjun.

Financial Times segir kætina slíka með samstöðu seðlabankanna að fjárfestar hafi lokað augunum um stund fyrir þeim neikvæðu fréttum að dregið hafi úr framleiðni í Kína í fyrsta sinn í þrjú ár.

Mikil hækkun varð beggja vegna Atlantsála eftir að seðlabankarnir tilkynntu um aðgerðirnar skömmu eftir hádegið að íslenskum tíma í gær.

Hækkunin hélt áfram á Asíumörkuðum í morgun. Nikkei-vísitalan hækkaði um1,983% og Hang Seng-vísitalan um heil 5,6%.

Það sem af er dags hefur FTSE-vísitalan í Bretlandi nú lækkað um 0,19% eftir stökk upp í byrjun dags, DAX-vísitalan í Þýskalandi hefur lækkað um 0,99% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi hefur lækkað um 0,74%. Vísitölurnar ruku upp um á bilinu 2-4% í gær.