Ýmsir fjárfestar eru orðnir vongóðir um að verðbólga í Bandaríkjunum hjaðni á næstu mánuðum og verði í kringum 3,3% að ári liðnu miðað við verðlagningu á afleiðumörkuðum. Sumir telja því að Seðlabanki Bandaríkjanna þurfi ekki að ráðast jafn hratt í vaxtahækkanir og áður var talið. Wall Street Journal greinir frá.

Seðlabankar heims glíma nú við vaxandi verðbólgu. Verðbólgan í Bandaríkjunum fór upp í 9,1% í júní og náði þar með sínu hæsta gildi í fjóra áratugi. Hins vegar hjaðnaði verðbólgan í síðasta mánuði og mældist 8,5%, undir spám greiningaraðila.

Sumir fjárfestar telja verðbólgutölur júlímánaðar gefa til kynna að verðbólguskot síðustu mánuða sé tímabundið og megi rekja til þátta á borð við raskana á aðfangakeðjum og stríðið í Úkraínu.

Sjá einnig: Stýrivextir í Bandaríkjunum hækka um 0,75 prósentur

Miðað við verðlagningu á afleiðumörkuðum eiga fjárfestar von á að verðbólgan hjaðni næsta árið og verið komin niður í 3,3% í ágúst 2023. Í umfjöllun WSJ er þó bent á að fyrir ári síðan gerðu fjárfestar ráð fyrir að verðbólgan yrði rétt yfir 3% í sumar. Verðbólgan hefur hins vegar mælst yfir 8% frá því í mars.

Bjartsýnni verðbólguvæntingar en áður hefur haft í för með sér að ávöxtunarkrafa tíu ára ríkisskuldabréfa fór niður í 2,85% á föstudaginn síðasta en var 3,48% í júní. Þá hafa hlutabréf tæknifyrirtækja hækkað nokkuð síðustu vikurnar en Nasdaq-vísitalan hefur hækkað um meira en 20% frá því um miðjan júní.