Málafjöldi vegna fjárfestasvika hefur nú þegar aukist um 77% frá fyrra ári, þó árið 2019 sé aðeins rétt rúmlega hálfnað. Frá þessu er greint í frétt á vef Landsbankans.

„Í þessum geira glæpaiðnaðarins eru fjárfestasvikin því núorðið algengustu svikin gagnvart einstaklingum hérlendis en fyrirmælafalsanir eru ennþá algengustu svikatilraunirnar gagnvart fyrirtækjum," segir í fréttinni.

Útsmoginn sálfræðihernaður

„Líkt og í öðrum samskiptasvikum (social engineering) má líkja fjárfestasvikum við sálfræðihernað þar sem svikahrappar nota sálræna og tilfinningalega eiginleika fólks til að ráðskast með það. Fyrst er beitt svonefndum „köldum“ snertingum (cold calls) þar sem svikarinn reynir að fyrra bragði að ná til fjölda fólks."

„Þegar fórnarlamb bítur á agnið hefst annað og einbeittara ferli þar sem hiti færist í leikinn. Svikarinn beitir miklum þrýstingi og leggur áherslu á að viðkomandi þurfi að taka ákvörðun skjótt svo hann missi ekki af tækifæri lífsins."