Fjárfesting dróst saman um 13% að raungildi á fyrstu sex mánuðum ársins borið saman við sama tíma í fyrra, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar .

Hagstofan segir í Hagtíðindum að samdráttinn megi að miklu leyti rekja til mikils innflutnings á skipum og flugvélum á 1. og 2. ársfjórðungi í fyrra. Að frádreginni fjárfestingu í skipum og flugvélum jókst fjárfesting um 4,1% á fyrstu sex mánuðum ársins. Fjárfesting atvinnuvega dróst saman um 18,6% án skipa og flugvéla. Íbúðafjárfesting jókst um 1% og fjárfesting hins opinbera jókst um 5,1% á sama tímabili.

Ef ársfjórðungar eru bornir saman dróst fjárfesting saman um 5,5% að raungildi. Fjárfesting atvinnuvega dróst saman um 10,1% en fjárfesting hins opinbera jókst um 14,7%. Á sama tímabili stóð íbúðafjárfesting í stað. Árstíðaleiðrétt fjárfesting jókst um 11,9% á öðrum ársfjórðungi nú borið saman við fyrsta ársfjórðung. Fjárfesting atvinnuvega jókst um 16,7%, fjárfesting hins opinbera um 6,9% og íbúðafjárfesting um 0,6% á sama tímabili, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.