Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Er þar meðal annars farið yfir afkomu Nox Medical og móðurfélagsins Nox Health, sem varð til er Nox Medical og bandaríska systurfélagið FusionHealth sameinuðust fyrir um einu og hálfu ári síðan.

Pétur segir að sú aðgerð stjórnvalda að hækka endurgreiðsluhlutfall rannsókna- og þróunarkostnaðar úr 20% í 35% fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, auk þess sem þak endurgreiðslu hækkaði úr 600 milljónum í 1,1 milljarð króna, hafi gert Nox kleift að blása í sóknarlúðra á faraldurstímum. „Þetta gerði okkur kleift að gefa í og leggja enn meiri áherslu á rannsóknir og þróun, þar sem þarna vorum við komin með ákveðinn fyrirsjáanleika. Við gátum því hert róðurinn og ráðið inn fleira fólk. Í upphafi faraldursins störfuðu 55 hjá Nox hér á landi en í dag erum við 75."

Hann hvetur stjórnvöld til þess að líta ekki á hækkun á endurgreiðsluhlutfallinu sem tímabundna COVID-19 aðgerð, líkt og t.d. hlutabætur. Ríkisvaldið þurfi að líta á endurgreiðslu á rannsókna- og þróunarkostnaði sem fjárfestingu en ekki hefðbundinn styrk.

„Þetta má ekki bara verða eitt af þessum Covid-úrræðum sem fallið verður frá þegar faraldurinn er að baki. Fyrirtækjarekstur er langhlaup þar sem hlutirnir eru planaðir mörg ár fram í tímann. Þetta tól, endurgreiðsla á rannsókna- og þróunarkostnaði, er eitthvert öflugasta tól sem þjóðríki hafa í sinni verkfærakistu til þess að hvetja fyrirtæki til þess að sækja fram, efla sína starfsemi og festa rætur innan þess þjóðríkis þar sem þetta fyrirkomulag er við lýði. Ég held að fólk átti sig ekki almennt á mættinum sem þetta tól býr yfir og getur orðið hornsteinn áframhaldandi uppbyggingar á hátæknifyrirtækjum hér á landi," segir Pétur og bendir á að með þessu megi ekki aðeins tryggja að íslensk hátæknifyrirtæki haldi áfram að fjárfesta í rannsóknaog þróunarstarfsemi hér á landi. Heldur geti þetta einnig orðið til þess að erlend hátæknifyrirtæki renni hýru auga til þess að hefja starfsemi á Íslandi, sem myndi skapa ný störf og skila auknum tekjum í ríkissjóð.

Pétur segir að nýsköpunarumhverfið á Íslandi hafi þar til fyrir nokkrum árum verið nokkuð svelt, en í dag sé staðan allt önnur. „Það hafa fjölmörg sprotafyrirtæki sem þróa tæknilausnir og fjárfesta ríkulega í rannsókna- og þróunarstarfi orðið að stórum og  öflugum fyrirtækjum sem hafa náð stórkostlegum árangri. Það felur í sér fjölda tækifæra og mikla verðmætasköpun að leggja áherslu á að byggja upp nýsköpunarfyrirtæki sem reiða sig eingöngu á hugvit, þekkingu og tækni, og krefjast ekki náttúruauðlinda."

Fyrirtæki spretta ekki upp af sjálfu sér

Ríkisvaldið þurfi að átta sig á því að slík fyrirtæki spretti ekki upp af sjálfu sér; hagfellt umhverfi þurfi að vera til staðar. „Umhverfið hefur sem betur fer tekið stórstígum framförum og ákvarðanir sem núverandi ríkisstjórn hefur tekið á þessum enda bera vott um kjark, áræði og framsýni. Nýsköpun er ekki lengur einhver tyllidagaumræða, heldur er raunverulega verið að láta verkin tala og leggja grunninn að því að hér á landi byggist upp öflugur hugverkaog hátækniiðnaður, sem styður við áframhaldandi hagvaxtaraukningu og stuðlar að góðum lífskjörum hér á landi."

Pétur hrósar ríkisstjórninni einnig fyrir að hlúa vel að Tækniþróunarsjóði. „Tækniþróunarsjóður er gífurlega mikilvægur stuðningur fyrir sprotafyrirtæki sem eru enn á hugmyndastigi. Ég get fullyrt að ef Nox Medical hefði ekki haft aðgang að styrkjum í gegnum Tækniþróunarsjóð, hefði atburðarásin orðið önnur og fyrirtækið jafnvel aldrei orðið að veruleika." Þeir fjármunir sem Nox Medical fékk í styrki frá Tækniþróunarsjóði hafi skilað sér ríkulega til baka til ríkissjóðs í gegnum skattkerfið. „ Fyrir hverja krónu sem Nox fékk af styrkfé frá Tækniþróunarsjóði hafa rúmlega 20 krónur skilað sér til baka í ríkiskassann. Heldur hressileg ávöxtun á það fé og hún heldur áfram að aukast á meðan starfsemi Nox vex og dafnar. Alls hafa þrír milljarðar runnið frá Nox Medical til ríkissjóðs í gegnum skattkerfið sem ríkið hefði annars farið á mis við ef Nox hefði aldrei komist á legg."

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, og  nýsköpunarráðherra, skipaði í mars fyrstu stjórn Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs á vegum stjórnvalda. Pétur er einn af fimm aðilum sem ráðherra skipaði í stjórn sjóðsins og kveðst hann spenntur fyrir þessu verkefni þar sem lengi hafi skort fjármagn frá vísisjóðum inn í sprotageirann.

„Það kviknaði sú hugmynd að ríkið gæti sett hvata inn í fjárfestingaumhverfið með því að leggja til fé í vísisjóði á móti lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum, og þannig styrkt fjárfestingaumhverfi sprotafyrirtækja sem eru komin á vaxtarstig. Á því stigi þurfa sprotafyrirtæki á fjármagni að halda. Það að hér sé til staðar virkt vísisjóðaumhverfi skiptir mjög miklu máli til að sprotafyrirtæki geti vaxið og dafnað."

Nánar er rætt við Pétur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .