Gert er ráð fyrir að landsframleiðsla aukist um 2,7% á þessu ári og 3% árið 2015. Aukning einkaneyslu verður 3,5% í ár og fjárfesting eykst um 9,2%. Þetta kemur fram í hagtíðindum Hagstofu Íslands sem komu út í dag.

Árið 2015 er reiknað með að að einkaneysla aukist um 3,3% og nærri 3% á ári 2016-2018. Fjárfesting eykst um 18,2% árið 2015 og verður vaxandi ef frá er talið árið 2017. Samneysla eykst um 0,7% á þessu ári og 0,8% 2015 en vex í tæp 2% á ári eftir það.

Áætlun ríkisstjórnarinnar um lækkun verðtryggðra íbúðalána ásamt aukningu ráðstöfunartekna, sem m.a. má rekja til styrkingar vinnumarkaðar, styðja við einkaneyslu á spátímanum.

Spáð er 2,6% verðbólgu árið 2014, 3,4% árið 2015 og 3,1% árið 2016, en undir þremur prósentum eftir það. Kjarasamningum er að mestu lokið á almennum vinnumarkaði en lausir kjarasamningar opinberra starfsmenn viðhalda nokkurri óvissu um launa- og verðlagsþróun.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 15. nóvember síðastliðinn og er næsta útgáfa ráðgerð í lok júní í sumar.