Framtakssjóður Íslands (FSÍ) hefur nærri þrefaldað fjárfestingu sína í Icelandair Group frá árinu 2010. Sjóðurinn keypti 30% hlut í formi nýs hlutafjár á seinni hluta árs 2010 í tveimur útboðum fyrir samtals um 3,6 milljarða króna. Alls hefur verið seldur 17% hlutur fyrir um 5,3 milljarða króna. FSÍ á enn 12% hlut sem er ríflega 5,2 milljarðar að markaðsvirði. Virði seldra og óseldra bréfa FSÍ í Icelandair Group er því um 10,6 milljarða virði. Ávöxtun sjóðsins, ef hann selur eftirstandandi bréf, er um 295%.

FSÍ var stofnaður árið 2009 af sextán lífeyrissjóðum. Við kaup á Vestia, eignarhaldsfélagi Landsbankans, eignaðist bankinn tæplega 28% í FSÍ. Tilgangur sjóðsins var að koma að endurreisn íslensks efnahagslífs með fjárfestingum.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.