Þeir sem fjárfestu í hlutabréfum olíufélagsins BP þann 25. júní sl. eru í dag búnir að ávaxta fé sitt um 65%, í dollurum talið. Þann dag sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, að olíulekinn á Mexíkóflóa gæti leitt til gjaldþrots BP. Hlutabréfaverð í BP hríðféll í kjölfar olíulekans og náði lágmarki þann 25. júní.

Reuters fjallar um málið í dag og svarar spurningunni „afhverju klárir fjárfestar græddu á olíuleka BP“. Sömu sögu er að segja af fyrirtækjum sem einnig tengdust olíuslysinu. Þannig hafa hlutabréf í sementsframleiðandanum Halliburton hækkað um 121% og fyrirtækin Transocean og Cameron, sem framleiða vélabúnað, hafa hækkað um 64% og 80%. Þá hafa minnihlutaeigendur í BP hækkað gífurlega. Anadarko Petroleum hefur hækkað um 123% og Mitsui um 45%.

Í frétt Reuters segir að það sé ekki óalgengt að fjárfest sé í fyrirtækjum sem eiga í erfiðleikum, í þeirri von að verð hækki hratt að nýju. Því fylgir þó mikil áhætta og geta fjárfestar auðveldlega setið uppi með hlutabréf sem hríðfalla stanslaust í verði.

Vogunarsjóðsstjórinn Glenn Tongue segir að hagnaður sjóðsins sem hann stýrir hafi ekki byggst á heppni heldur hafi áhættan verið reiknuð út. Sjóðurinn, sem heitir T2 Partners, hefur grætt mikið á bréfum BP og annarra sem tengjast olíulekanum. Hann segir að reikningsdæmið hafi verið annað en þegar fjöldi fjárfesta keypti „ódýr“ hlutabréf í bandarískum fjármálastofnunum mánuðum áður en fjármálakreppan skall á.

Tongue segir að tekið hafi verið tillit til áætlaðs kostnaðar vegna olíulekans, hagnaðar BP, mikilvægi félagsins sem eitt af stærstu fyrirtækjum heims. Í dag er talið að skaðabótaskylda BP nemi 42 milljörðum dala sem er mun lægra en 100 milljarðarnir sem hurfu af markaðsvirði.