Fjárfesting dróst saman um 8,1% á síðasta árið, fjórða árið í röð. Árið 2009 nam samdrátturinn 50,9% og 19,7% árið 2008 eftir mikinn vöxt fjögur ár þar áður. Fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu nam 12,9% og er þetta hlutfall nú í sögulegu lágmarki. Sambærilegt hlutfall fyrir OECD ríkin í heild hefur verið mun stöðugra eins og vænta mátti, um eða undir 20% undanfarinn aldarfjórðung.

Þetta segir í Hagtíðindum Hagstofu Íslands sem kom út í dag. Líkt og greint hefur verið frá í morgun þá birti Hagstofan í dag gögn um landsframleiðslu síðasta árs. Landsframleiðsla dróst saman að raungildi um 3,5% á árinu 2010 samkvæmt áætlun Hagstofu Íslands.

„Atvinnuvegafjárfesting jókst um 0,9% eftir mikinn samdrátt undanfarin þrjú ár, það er 55% árið 2009 og 22–23% árin 2007 og 2008. Þyngst vegur minni fjárfesting í stóriðju- og orkuverum, en hún náði hámarki árið 2006, og almennt minni fjárfesting í byggingum og mannvirkjum. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði dróst saman um 17% í fyrra, samanborið við 56% samdrátt árið 2009 og 22% árið 2008. Mikill samfelldur vöxtur hafði verið í íbúðarfjárfestingu frá og með árinu 2000 og ekki orðið samdráttur frá fyrra ári síðan árið 1997. Fjárfesting hins opinbera dróst saman um 22% á árinu 2010 og um 32% á árinu 2009, en stóð nánast í stað árið 2008. Að raungildi var fjárfesting, alls, á síðasta ári svipuð og árið 1996.“