Lúxushótelið Deplar Farm, sem er í Fljótunum á Tröllaskaga, hefur verið valið áttunda besta lúxushótel heims af lesendum tímaritsins Condé Nast Traveler í árlegu vali á bestu lúxushótelum heims, en aðeins 50 hótel komust á listann. Er þetta í 23. sinn sem tímaritið tekur saman slíkan lista. Þá situr hótelið í þriðja sæti á lista fyrrnefnds tímarits yfir 30 bestu lúxushótel í Evrópu.

Hótelið var opnað í apríl árið 2016 og er það rekið af bandaríska ferðaþjónustufyrirtækinu Eleven Experience, sem rekur m.a. lúxus gististaði í frönsku Ölpunum, Patagóníu í Chile og í Klettafjöllunum í Colorado í Bandaríkjunum.

Haukur B. Sigmarsson, framkvæmdastjóri Eleven Experience á Íslandi, segir að ofangreindur árangur sé mikil viðurkenning fyrir alla sem koma að rekstri Deplar Farm.

„Þetta er með stærri viðurkenningum sem fyrirtæki geta fengið í þessum geira  og mun eflaust gera heimsóknir til okkar enn eftirsóttari. Það er líka mikil viðurkenning fólgin í því að það voru lesendur blaðsins sem sáu um einkunnagjöfina. Lykilatriðið á bak við ánægju viðskiptavina er að vera með gott starfsfólk og við höfum á að skipa mjög flottu starfsfólki sem veitir góða og persónulega þjónustu."

Haukur segir að langflestir viðskiptavinir hótelsins séu erlendir ferðamenn og þá aðallega Bandaríkjamenn.

Vilja höfða til allra

Fjölmargir afþreyingarmöguleikar eru í boði hjá Deplar Farm.

„Þar má helst nefna hefðbundna sumarafþreyingu líkt og gönguferðir, hvalaskoðun, heimsóknir á Drangey og Hrísey og svo erum við með nokkur húsnæði í um 10 km radíus við Depla sem eru afþreyingatengdir áfangastaðir. Það er hægt að ganga þangað, eða notast við farartæki eins og t.d. hjól, vélsleða eða gönguskíði. Þá er einnig hægt að stunda veiði og við verslum mikið af veiðileyfum fyrir okkar viðskiptavini í hinum ýmsu ám á svæðinu og má þar nefna Fljótá, Húseyjarkvísl, Eyjafjarðará og Héðinsfjarðará, auk þess sem við leigjum Hölkná í Þistilfirði yfir sumartímann," segir Haukur og bætir við: „Þá erum við með stærðarinnar spa þar sem fólk hefur aðgang að jógakennara og nuddara. Helmingurinn af neðri hæðinni okkar er heilsutengt svæði með aðgengi að t.d. gufubaði, saunu, jógasal, tækjasal og heitum pottum. Svo erum við með glæsilega sundlaug utandyra, þar sem fólk getur sest á barinn í lauginni og notið útsýnisins. Markmið okkar er að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi á svæðinu."

Eflir atvinnulífið í Skagafirði

Haukur bendir á að Deplar Farm hafi reynst góð viðbót fyrir atvinnulífið í Skagafirði. „Umfangið er þó nokkuð og í sumar störfuðu 84 starfsmenn hjá okkur, sem gerir okkur að einum af stærstu vinnustöðunum í Skagafirði. Í ljósi umræðunnar um erlent eignarhald á jörðum má benda á að þetta er dæmi um velheppnaða erlenda fjárfestingu sem skilar sér til samfélagsins. Á svæðinu í kringum Depla er búið að byggja upp góða innviði, en dalurinn var áður við það að leggjast í eyði.

Við erum gífurlega spennt fyrir framtíðinni og það eru fjölmörg sóknartækifæri í lúxusferðaþjónustu. Þeir ferðamenn skilja meira eftir sig og reynast hagkerfi svæðisins mjög vel. En við þurfum alltaf að gæta þess að  allt sem við okkur kemur  sé upp á tíu. Allar vörur sem við bjóðum upp á þurfa að vera stöðugar og vel úthugsaðar, því maður er fljótur að fá þær aftur í hausinn ef eitthvað er í ólagi."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .