*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 23. september 2020 15:51

Fjárfesting sjaldan rýnd jafnítarlega

Formaður stjórnar LIVE, og framkvæmdastjóri VR, segir ítarlega rýningu á Icelandair sýna útboðið of áhættusamt.

Ritstjórn
Bæði Lífeyrissjóður verzlunarmanna og VR eru staðsett í Húsi verslunarinnar við Kringluna, en Stefán Sveinbjörnsson, að neðan, er formaður stjórnar lífeyrissjóðsins sem og framkvæmdastjóri VR.
Haraldur Guðjónsson

Formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, LIVE, segir það hafa verið niðurstöðu stjórnarinnar að vænt ávöxtun af fjárfestingu í Icelandair vægi ekki upp mikla áhættu af henni. Segir hann jafnframt að sjaldan hafi „fjárfestingakostur sjóðsins verið rýndur með jafn ítarlegum hætti og hlutafjárútboð Icelandair“.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Stefáns Sveinbjörnssonar, sem er einn fjögurra fulltrúa launþegasamtakanna í stjórn lífeyrissjóðsins og framkvæmdastjóri VR, í Kjarnanum vegna umræðu um hlutafjárútboðið og ástæður þess að sjóðurinn hafi ekki tekið þátt.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag hefur Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR skrifað langa færslu á facebook þar sem hann lýsir yfir vantrausti á fulltrúa atvinnurekanda í stjórn sjóðsins, Guðrúnar Hafsteinsdóttur varaformanns sjóðsins.

Ragnar Þór segir færsluna viðbrögð við svokölluðum dylgjum og það sem hann kallar ofsafengin viðbrögð varaformannsins við því að þátttaka sjóðsins hafi fallið á jöfnu fjögurra fulltrúa launþegasamtakanna á móti fjórum fulltrúum atvinnurekenda.

Óvenjulegt útboð því til að fjármagna tap

Stefán fer yfir það í yfirlýsingu sinni hvernig lífeyrissjóðurinn hafi tekið ákvörðunina um að taka ekki þátt í útboðinu, en eins og sagt var frá í fréttum var sjóðurinn fyrir útboðið nærst stærsti eigandinn í félaginu með tæplega 12% eignarhlut.

„Ljóst var að um óvenjulegt útboð væri að ræða þar sem hlutafjáraukningunni var ætlað að mæta taprekstri komandi mánaða,“ segir Stefán sem segir fagmennskuna vera í fyrirrúmi hjá sjóðnum sem hafi ásamt hagsmunum sjóðfélaga ráðið niðurstöðunni.

„Lífeyrissjóður verzlunarmanna fór í mjög ítarlega greiningu á þessum fjárfestingakosti. Sú greining fól m.a. í sér að fenginn var utanaðkomandi ráðgjafi til að rýna fjárfestingakostinn, haldnir voru fundir með stjórnendum Icelandair, sendar voru skriflegar spurningar til félagsins, farið var í rýnivinnu með sérfræðingum (e. airline specialists) hjá Bloomberg, rýnt var í greiningarefni úr fluggeiranum, rýnt var í ársreikninga erlendra flugfélaga og fenginn var erlendur ráðgjafi til að rýna í umhverfisþætti, félagslega þætti og stjórnhætti félagsins. Til viðbótar þessu stillti lífeyrissjóðurinn í samstarfi við ráðgjafa sinn upp verðmatslíkani til að meta vænta ávöxtun af fjárfestingunni.“