Fjárfesting Novators, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, í bandaríska fjártæknifyrirtækinu Stripe hefur nærri þrefaldast á ríflega einu ári. Er Novator tók þátt í hlutafjáraukningu félagsins undir lok árs 2019 var Stripe metið á 35 milljarða dala, en í kjölfar nýlokinnar fjármögnunar félagsins er það metið á 95 milljarða dala.

Þar með er félagið, samkvæmt frétt FT , orðið verðmætasta félagið í Kísildalnum sem ekki er skráð á hlutabréfamarkað.

Í fjármögnuninni sem nýlega fór fram safnaðist alls 600 milljónir dala, en meðal fyrirtækja sem lögðu til fé voru Allianz, Fidelty, AXA og SequoiaCapital. Líkt og fyrr segir hefur virði félagsins nær þrefaldast á einu ári og er virði Stipe nú orðið hærra en virði risa á borð Facebook og Uber var á sínum tíma fyrir skráningu félaganna á markað.