Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í dag að halda stýrivöxtum óbreyttum en samhliða ákvörðuninni voru efnahagshorfur bankans til næstu þriggja ára kynntar í nýju hefti Peningamála. Horfur bankans hafa ekki tekið miklum breytingum frá því að Peningamál komu út síðast í maí en að sögn Más Guðmundssonar seðlabankastjóra er innlend eftirspurn öllu meiri en undanfarin ár, hagvöxtur minni og verðbólguhorfur alla jafna betri.

Athygli vekur að ekki er gert ráð fyrir því að fyrirhugað álver í Helguvík komi til framkvæmda á spátímabili bankans en þrjár kísilverksmiðjur vega þar upp á móti samkvæmt spánni. Á heildina litið er fjárfestingastigið hærra í þessari spá en síðast að sögn Más en fjárfesting sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verður komið í sögulegt meðaltal í lok spátíma Seðlabankans árið 2016 gangi hún eftir.

VB Sjónvarp ræddi við Má.