„Markmið fjárfestingaáætlunar fyrir Ísland (2013-2015) er að styðja við hagvöxt og fjölbreytni í atvinnulífi. Áætlunin er liður í nýrri sókn eftir efnahagshrunið og er ætlað að styðja við efnahagsbata og hagvöxt. Hún er sett fram á grunni þess að ríkissjóður endurheimti stóran hluta af þeim fjármunum sem lagðir voru fram til að endurfjármagna bankakerfið og að með nýjum lögum um fiskveiðistjórnun og veiðigjöld fái þjóðin aukna hlutdeild af arði sjávarauðlinda.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu vegna nýrrar fjárfestingaráætlunar fyrir Ísland 2013-2015.

Alls er gerð tillaga um verkefni sem leiða af sér fjárfestingu fyrir um 88 milljarða króna en þar af er gert ráð fyrir að 39 milljarðar verði fjármagnaðir úr fjárfestingaráætluninni. Fjármögnun er tvíþætt og er gert ráð fyrir að 17 milljarðar komi af sérstöku veiðigjaldi og leigu aflahlutdeilda. Áformin eru því með fyrirvara um samþykkt fyrirliggjandi frumvarpa um fiskveiðistjórnun og veiðigjöld.

22 milljarðar eiga að koma af arði og eignasölu hluta ríkisins í bönkum. Gert er ráð fyrir að hluti sérstaka veiðgjaldsins renni til valinna þátta í fjárfestingaáætluninni frá og með árinu 2013. Þá eiga 2.500 m. kr. Árlega til fjármögnunar á samgönguáætlun/jarðgangaáætlun, 2.000 m.kr. árlega til eflingar rannsóknarsjóðs- og tækniþróunarsjóðs, 1.200 m.kr. árlega til atvinnuþróunar og sóknaráætlana á vegum landshlutasamtaka.