Bandarísku fjárfestingabankarnir Goldman Sachs og Morgan Stanley leita nú að skrifstofuhúsnæði í Frankfurt þar sem þeir hyggjast báðir flytja evrópskar höfuðstöðvar sínar þegar Bretland gengur úr Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg .

Samkvæmt fréttinni hefur Goldman augastað á Skylight byggingunni í miðborg Frankfurt. Fyrir í byggingunni er Skandinaviska Enskilda bankinn, en sá banki hyggst fækka starfsmönnum í Frankfurt, sem þykir renna stoðum undir orðróminn að Goldman muni flytja inn í bygginguna. Hyggst Goldman flytja allt að 1.000 störf frá London til Frankfurt þegar Bretland gengur formlega úr Evrópusambandinu.

Morgan Stanley mun hafa augastað á byggingu, sem er í eigu Credit Suisse. Byggingin kom á markað fyrir ári síðan og er enn laust pláss í byggingunni til að hýsa allt að 1.500 starfsmenn. Morgan Stanley er sagður ætla að flytja um 300 störf til Frankfurt eða Dublin frá Bretlandi af sömu ástæðum og Goldman. Segir í fréttinni að bankinn gæti endað með að flytja allt að 1000 störf frá Bretlandi.