Fjárfestingafélagið Afl seldi í gær allan hlut sinn í HB Granda fyrir tæpar 389 milljónir en félagið átti tæplega 4% hlutafjár HB Granda að nafnvirði ríflega 58 milljónir. Kaupendur voru annars vegar Vogun hf. sem keypti 47 milljónir hluta og hins vegar Hampiðjan hf. sem keypti 11 milljónir hluta. Viðskiptin fóru fram utan þings á genginu 6,7 en hæsta verð innan þings og jafnframt lokaverð HB Granda í gær var 6,6.

Í Hálffimm fréttum sínum í dag veltir greiningardeild KB banka fyrir sér nýrri stöðu: "Eignarhald HB Granda þrengist enn við þessi kaup Vogunnar og Hampiðjunnar en þessi félög eru tveir stærstu hluthafar HB Granda. Árni Vilhjálmsson, stjórnarformaður HB Granda og Kristján Loftsson stjórnarmaður eru einnig stjórnarmenn í Hampiðjunni og Vogun þar sem Kristján er raunar stjórnarformaður. Vogun á eftir kaupin tæp 36% hlutafjár og Hampiðjan fór yfir 10% með sínum kaupum. Í tilkynningu um viðskiptin kemur fram að hlutir fjárhagslega tengdir Árna nemi ríflega 45% og hlutir fjárhagslega tengdir Kristjáni nemi tæplega 54%, en Kristján er stjórnarformaður Kers hf. og framkvæmdarstjóri Fiskveiðihlutafélagsins Venusar hf. en hvort þessara félaga á um 3% í HB Granda."

Greiningardeild KB banka bendir ennfremur á að viðskipti með bréf HB Granda (áður Granda) verið stopul og seljanleiki bréfanna sveiflast mikið sem auðvitað hræðir fjárfesta frá stöðutöku í félaginu sérstaklega með tilliti til hversu þröngt eignarhaldið er.