Gnúpur Fjárfestingafélag ehf. hefur tekið til starfa og hefur Þórður Már Jóhannesson verið ráðinn forstjóri félagsins. Að sögn Þórðar eru þegar nokkur verkefni í gangi hjá félaginu og þess ekki langt að bíða að greint verði frá fyrstu verkefnum þess. Félagið mun koma að verkefnum bæði innan- og utanlands.

Eigið fé hins nýja félags er samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins nálægt 35 milljörðum króna og efnahagsreikningurinn nálægt 70 milljörðum króna. Aðaleigendur félagsins eru fjárfestarnir Magnús Kristinsson og Kristinn Kristinn Björnsson, auk Þórðar, og leggja þeir hlutabréf sín í FL Group og Kaupþingi banka inn í þetta nýja fjárfestingafélag en þeir eru meðal stærstu hluthafa FL Group.

Félög Magnúsar og Kristins eiga samtals 25% hlut í FL Group en þeir keyptu hluti sína þar 20. júlí síðastliðinn. Aðrar eignir þeirra félaga munu ekki fara inn í félagið en Magnús er sem kunnugt er eigandi Toyota á Íslandi, Bílaleigu Flugleiða (Herz á Íslandi), Sólningar, Gísla Jónssonar ehf. og útgerðarfélagsins Bergur-Huginn. Kristinn er meðal annars stór hluthafi í Árvakri, Nóa-Síríusi og Eignarhaldsfélaginu Geira ehf. sem á Kornax/MR.

Auk Þórðar hafa þau Aðalsteinn Jónasson hæstaréttarlögmaður og Björk Gunnarsdóttir verið ráðin til félagsins. Björk mun sinna fjármálasviði félagsins. Þess má geta að orðið Gnúpur vísar til fjallstinds sem skagar fram úr fjallaklasa.