Róbert Wessman, forstjóri Actavis, neitar því að fyrirtækið hafi áhuga á að gera tilraun á næstunni til þess að taka yfir þýska samheitalyfjafyrirtækið Stada í samtali við Financial Times Deutchland í dag.

Halldór Kristmannsson, talsmaður Actavis, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í fyrr í þessum mánuði að fyrirtækið stefni að því að klára tvær yfirtökur fyrir áramót. Stuttu síðar tilkynnti félagið um kaup á 51% hlut í rússneska lyfjafyrirtækinu Zdorovje fyrir 47 milljónir evra, eða rúmlega fjóra milljarða króna.

Í samtali við FT Deutschland segir Róbert: "Við munum greina frá annarri yfirtöku fyrir jól." Blaðið segir Róbert hafa áhuga á Stada en að fyrirtækið sé of dýrt miðað við núverandi gengi hlutabréfa þess og yfirtaka því óraunhæfur möguleiki. Róbert útilokar þó ekki kaup í Þýskalandi.

FT Deutscland segir fjárfestingagetu Actavis vera um 3,5 milljarðar evra, sem samsvarar rúmlega 320 milljörðum króna. Fyrirtækið varð undir í baráttunni um króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva, en bandaríska lyfjafélagið Barr samþykkti að kaupa félagið fyrir 175 milljarða króna fyrr á þessu ári.