Á hluthafafundi í gær var nafni Og fjarskipta breytt í Dagsbrún og verður það móðurfélag samstæðunnar. Einnig var áherslum félagsins breytt, en nú er aðal tilgangur þess að fjárfesta í dóttur- og hlutdeildarfélögum sem starfa í fjarskiptaþjónustu, fjölmiðlun og skyldri starfsemi. Stjórn félagsins var einnig veitt tvenns konar heimild til þess að auka hlutafé. Annars vegar er um að ræða almenna heimild til aukningar hlutafjár um allt að einn milljarð kr. Hins vegar er stjórninni veitt heimild til að auka hlutafé um allt að 200 milljónir kr. vegna kaupa á hlutum í öðrum félögum.

Í afkomuspá greiningardeildar KB bnanka 6. október ítrekuðum þeir vogunarráðgjöf sína varðandi Og fjarskipti. "Við höldum þeirri ráðgjöf áfram og mælum með að fjárfestar markaðsvegi bréf sín í Og fjarskiptum í vel dreifðum eignasöfnum byggðum á íslenska hlutabréfamarkaðinum," segir í áliti KB banka.

Fram kom á afkomukynningu Dagsbrúnar að fjárfestingargeta þess að þessum heimildum meðtöldum væri um 15 milljarðar króna. Einnig er eiginfjárstaða félagsins góð, en eigið fé hefur aukist um 18% frá áramótum, bæði vegna rekstrarhagnaðar og eins vegna sölu eigin bréfa. Eiginfjárhlutfall félagsins er nú 39,8% en án viðskiptavildar er það hins vegar neikvætt um 13% bendir greiningardeild KB banka á í áliti sínu.

Mikilla umsvifa er því að vænta hjá félaginu og er ætlunin að ráða inn sérfræðinga í fjárfestingastarfsemi á næstunni. Þá verður áfram unnið að samþættingu fjarskipta- og fjölmiðlahlutans, einkum í þjónustuverum, rekstri dreifikerfa sem og sameiginlegri fjármálastjórnun. Áætlað er að sú samþætting geti skilað félaginu 150 milljónir kr. í kostnaðarlækkun.

Stjórnendur Dagbsbrúnar og dótturfélaga horfa afar björtum augum fram á veginn. Ætlun móðurfélagsins er að tvöfalda umsvif sín á næstu 18 til 24 mánuðum, bæði með innri vexti og eins með kaupum á félögum innanlands og erlendis. Erlendis horfir félagið helst til markaða í Norður-Evrópu hvað þetta varðar. Einnig gerir fjarskiptahlutinn, Og vodafone, áfram á ráð fyrir um 15% vexti. Gera má ráð fyrir að 4. ársfjórðungur verði jafnvel betri en sá þriðji, sérstaklega vegna mikils framboðs nýrrar þjónustu og þess að 3. ársfjórðungur í fjölmiðlum er jafnan verstur, en 4. sá besti.