Ólafur Ísleifsson lektor í hagfræði segir fjárfestingaleið Seðlabankans eðlilega tilraun til að minnka áhættuna sem fylgir því að draga úr gjaldeyrishöftum. Hins vegar þurfi að meta hvort krónan sé raunhæfur gjaldmiðill. Það sé stærsta óleysta verkefnið við uppbyggingu hagkerfisins, sagði hann í viðtali við fréttastofu RÚV.

Seðlabankinn kynnti á föstudag ný skref í afnámi gjaldeyrishafta, sem gengur út á að reyna að nýta aflandskrónur til innlendra fjárfestinga að undangengnum gjaldeyrisútboðum. Ólafur segir að erfitt sé að stíga stór skref í afnámi haftanna ef skipan peningamála breytist ekki. „Þetta er hins vegar eðlileg tilraun bankans til að freista þess að draga úr þeirri áhættu sem fylgir rýmkun á þessum höftum,“ sagði Ólafur.

Áhættan fylgi aflandskrónunum og vegna þeirra geti krónan hríðfallið ef gjaldeyrisviðskipti verði gefin frjáls. Ólafur segir að bægja verði þeirri áhættu frá áður en metið sé að hve miklu leyti hægt sé að taka upp frjáls gjaldeyrisviðskipti.