Exista ehf. er stærsti hluthafinn í Skipti ehf. sem síðasta laugardag tók við rekstri Símans. Eignarhald Exista skiptist þannig að 59% er í eigu Bakkabræðra Holding, 22% er í eigu átta sparisjóða og KB banki á 19%. Að sögn Erlendar Hjaltasonar, forstjóra Exista, eru engin áform uppi um breytingar á því eignarhaldi. Það eru heldur engin áform uppi um að skrá félagið í kauphöll. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Erlend í dag.

Erlendur segir Exista leggja megináherslu á að fjárfesta til lengri tíma sem kjölfesturfjárfestir í skráðum og óskráðum félögum en einnig til skemmri tíma í hlutabréfum, skuldabréfum og öðrum þeim fjárfestingarkostum sem félagið telur arðsama á hverjum tíma. Félagið á nú í þremur félögum skráðum í Kauphöllinni, KB banka, Flögu Group og Bakkavör. Einnig á það 16% hlut í VÍS, hlut í SPRON auk 45% hlutarins í Skipti.

"Við höfum sagt að við viljum vera kjölfestufjárfestir í þeim félögum sem við komum að," sagði Erlendur. Í stuttu máli má segja að starfsemi félagsins snúist um að halda utan um eldri fjárfestingar (Bakkavör, KB banka), nýjar fjárfestingar (Síminn, VÍS) og skammtímafjárfestingar. Undir skammtímafjárfestingar falla bæði fjárfestingar í hlutabréfum og skuldabréfum og stýrir Bjarni Brynjólfsson því sviði hjá Exista. Þar hefur félagið einkum horft til erlendra hlutabréfamarkaða. "Þar förum við inn og út úr stöðum tiltölulega hratt en þessar fjárfestingar eru alla jafna ekki hugsaðar til langs tíma."

Heildareignir Exista ehf. eru yfir hundrað milljarðar króna. Styrkleiki félagsins er því verulegur. Fyrir utan eiginfjárframlag frá eigendum hefur félagið bæði verið fjármagnað með skuldabréfaútgáfu og bankalánum. Einnig hefur arður af fjárfestingum verið nýttur til uppbyggingar. Að sögn Erlendar eru niðurstöðutölur efnahagsreiknings félagsins ekki gefnar upp en hann tiltók þó að eiginfjárstaða félagsins væri mjög traust.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.