Í rammaáætlun iðnaðarráðuneytisins um vernd og nýtingu náttúrusvæða er gert ráð fyrir því að ef þeir virkjanamöguleikar sem falla í svokallaða nýtingar- og biðflokki verði að veruleika myndi það þýða tæplegfa 80% aukningu í virkjunarafli íslenskra virkjana á næstu átta árum. Greiningardeild Arion banka gerir ráð fyrir því að fjáfesting vegna þess stofnkostnaðar sem fylgir virkjunum gæti numið að meðaltali 4% af landsframleiðslu á næstu árum, eða um 84 milljörðum króna á ári á tímabilinu 2013-2019. Til samanburðar þá mældist heildarfjármunamyndun á Íslandi árið 2010 í kringum 199 milljarðar króna eða sem nemur 13% af vergri landsframleiðslu.

"Framlag aukinna virkjanaframkvæmda til fjárfestingar í landinu gæti því aukið fjármunamyndun um 30% á hverju ári komi til þessara framkvæmda. Því er ljóst að gríðarlegra hagvaxtaráhrifa myndi gæta ef ráðist yrði í framkvæmdirnar – en þann vara verður þó auðvitað að hafa á að ólíklegt er að öllum þessum virkjanakostum verði hrint í framkvæmd innan þess tímaramma sem hér er nefndur. Hins vegar er ljóst að talsvert rúm er til mikillar aukningar uppsetts afls bæði ef vilji og fjármagn er til staðar," segir í markaðspunktunum.

Samkvæmt grófu mati greiningardeildar gæti uppsafnað afl íslenskra virkjana aukist um tæplega 1.900 megavött á þessum áratugi ef virkjanamöguleikar úr orkunýtingar- og biðflokki yrðu nýttir. Þetta myndi þýða tæplega 80% aukningu í virkjunarafli íslenskra virkjana á næstu 8 árum en afl almenningsrafstöðva var árið 2009 áætlað um 2.500 MW.

Ljóst er að stærðargráðan er gríðarleg og samsvarar aflið til um þriggja Kárahnhjúkavirkjana svo dæmi sé tekið. Aflið gæti þó bæði verið minna eða meira þar sem töluverð óvissa ríkir um áætlað afl jarðhitakerfa sem eru um 60% virkjanamöguleika.