Landsvirkjun mun ekki ráðast í nýjar stórframkvæmdir nema að fjármögnun sé tryggð en stöðugt er unnið að endurfjármögnun eldri lána og fjármögnun nýrra orkuverkefna.

Þetta kemur fram í ársuppgjörstilkynningu félagsins.

Þar kemur fram að fyrirspurnir og heimsóknir frá hugsanlegum orkukaupendum sýna að eftirspurn eftir raforku frá Landsvirkjun er mikil og vonast fyrirtækið eftir því að það skili sér í hærra orkuverði í nýjum sölusamningum.

Fjárfestingar voru 120,5 milljónir Bandaríkjadala (USD) samanborið við 374,8 milljónir USD á árinu 2008 og drógust því saman um 2/3. Rannsóknir og þróun námu 23,6 milljónum USD samanborið við 48,4 milljónir USD á árinu 2008.