Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, segir að skuldir samstæðu Fjarðabyggðar sem hlutfall af tekjum séu nú áætlaðar um 220% og hafi því lækkað nokkuð.

„Það er gert ráð fyrir því í áætlunum að þetta hlutfall á að vera komið niður í 186% árið 2015. Við eigum eftir að sjá endanlega reglugerð vegna 150% viðmiðunarmarkanna en við ætlum að komast þangað innan sjö eða átta ára.“ Aðspurður segir Páll að Fjarðabyggð sé með töluvert laust fé á móti skuldum eða tæplega 800 milljónir. Fyrir því séu tvær ástæður, á tímum sem þessum sé nauðsynlegt að hafa góðan varasjóð jafnvel þótt Fjarðabyggð sé vel fjármögnuð og engin stór lán að falla á gjalddaga. En eins geti orðið frekari framkvæmdir á vegum Hafnarsjóðs vegna aukinnar atvinnuuppbyggingar og reyndar sé margt í burðarliðnum í þeim efnum.

Aðspurður um skuldirnar segir Páll að reist hafi verið álver sem kallað hafi á gríðarlega fjárfestingu í innviðum sveitarfélagsins. „Menn þurftu auðvitað að taka lán fyrir því en tekjurnar hafa líka vaxið á móti, það er okkar sérstaða. Og þrátt fyrir hrunið þá höfum við getað staðið við okkar og munum gera það. Það er engin hætta á ferðum hjá okkur. Við erum að njóta þess núna hvað sjávarútvegurinn gengur vel auk þess sem umsvifin kringum álverið hafa verið að aukast. Þegar búið er að byggja upp innviðina er líka eins og önnur atvinnutækifæri laðist að.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.