Samanlagður hagnaður tryggingafélaganna fjögurra nam 10 milljörðum króna í fyrra, og heildartekjur þeirra 80 milljörðum. Samanlagt eigið fé þeirra nam 57 milljörðum í lok síðasta árs og eignir 168 milljörðum. Samsett hlutfall ársins var nokkuð mismunandi milli félaga. Lægst var það hjá Verði með 93%, og 95,1% hjá Sjóvá, en VÍS var með 99,4% og TM efst með 101,9%.

Meðal þess sem stóð upp úr í rekstri tryggingafélaganna á síðsta ári var mikið og óvænt tap fjárfestingasjóðsins GAMMA: Novus á þriðja ársfjórðungi. Samanlagt tap skráðu tryggingafélaganna þriggja nam 610 milljónum króna vegna niðurfærslu Novus, þar af 300 milljónir hjá TM.

Öllum félögunum gekk vel með fjárfestingar sínar í fyrra, enda almennt góð ávöxtun skráðra verðbréfa. Vátryggingareksturinn gekk þó misvel milli félaga. Í ársreikningi VÍS kemur fram að vátryggingarekstur ársins hafi verið þyngri en gert hafi verið ráð fyrir. Muni þar mestu um lækkun vaxta og stór eignatjón, sem samanlagt hafi kostað félagið tæpan hálfan milljarð.

Á móti hafi þó fjárfestingatekjur verið góðar – rúmir 3,5 milljarðar – vegna mikillar hækkunar verðbréfa á árinu, en sérstaklega er vikið að góðri ávöxtun skráðra hlutabréfa. Ávöxtun fjárfestingaeigna nam 10,3% sem skilaði einu besta ári félagsins, að því leyti, frá skráningu þess á markað.

Þrátt fyrir erfiðan fjórða ársfjórðung og hátt samsett hlutfall, batnaði afkoma eignatrygginga TM umtalsvert milli ára í fyrra. Fjárfestingatekjur námu 3 milljörðum, sem jafngildir 10,1% ávöxtun og er, að því er segir, fyrst og fremst tilkomin vegna mikillar hækkunar óskráðra hlutabréfa, en skráð hlutabréf og skuldabréf skiluðu einnig góðri ávöxtun.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun og unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .