Milestone verður kjölfestufjárfestir í nýjum fjárfestingarbanka og hefst starfsemi hans um áramótin, að því er fram kemur í frétt á Mbl.is. Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, verður forstjóri bankans og mun taka til starfa þann 1. desember.

Eigið fé bankans verður um tíu til fimmtán milljarðar króna og starfsmenn um 40-45. Á komandi vikum verður tilkynnt um hverjir fleiri standi að hinum nýja fjárfestingarbanka.

Karl Wernersson segir í fréttinni að þetta muni ekki hafa áhrif á eign Milestone í Glitni. Milestone er næststærsti hluthafi Glitnis með 14,66% eignarhlut.