*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 10. apríl 2018 13:45

Fjárfestingarferli Frjálsa óheilbrigt

Niðurstaða athugunar FME er að fjárfestingarferli Frjálsa lífeyrissjóðsins í United Silicon hafi ekki verið eðlilegt og heilbrigt.

Ritstjórn
Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins.
Aðsend mynd

Að mati Fjármálaeftirlitsins var fjárfestingarferli Frjálsa lífeyrissjóðsins í United Silicon ekki eðlilegt og heilbrigt sbr. 4. mgr. 44. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn útvistar starfsemi sinni að öllu leyti til Arion banka sem er stærsti einstaki lánveitandi og hluthafi í United Silicon. Í ljósi þessa sérstaka rekstrarfyrirkomulags lífeyrissjóðsins og hagmunatengsla Arion banka, rekstraraðila Frjálsa lífeyrissjóðsins, við United Silicon telur Fjármálaeftirlitið að lífeyrissjóðurinn hafi ekki horft nægilega gagnrýnum augum á málið. 

Að Frjálsi hefði af þeim sökum ekki tekið fullnægjandi tillit til þeirrar orðsporsáhættu sem hann stóð frammi fyrir. Jafnframt taldi eftirlitið að skjalfesting á forsendum fjárfestingarinnar og umræðum í tengslum við ákvörðun stjórnar hefði verið ófullnægjandi í ljósi fyrrgreindra hagsmunatengsla.

Því fór Fjármálaeftirlitið fram á að ritun fundargerða lífeyrissjóðsins verði framvegis með þeim hætti að hægt sé að sýna fram á að sjónarmið og hagsmunir lífeyrissjóðsins hafi verið í fyrirrúmi við ákvörðunartöku. Ennfremur fór eftirlitið fram á að lífeyrissjóðurinn gripi til ráðstafana til að lágmarka orðsporsáhættu vegna hagsmunatengsla sjóðsins og rekstraraðila og endurskoðaði verklag sitt, svo sem með stefnu um hvenær óskað er eftir utanaðkomandi greiningum á fýsileika og áhættu fjárfestinga og hvernig fjárfestingarferli lífeyrissjóðsins skuli háttað þegar rekstraraðili eða aðilar honum tengdir eru einnig haghafar að verkefnum.

Í ofanálag fór eftirlitið fram á að lífeyrissjóðurinn gerði grein fyrir þeim aðgerðum sem sjóðurinn hyggðist grípa til til þess að bæta verklag við fjárfestingarákvarðanir. 

Það hefur Frjálsi nú gert en í tilkynningu frá sjóðnum segir að fjárfestingarferli sjóðsins hafi verið lagað enn frekar að kröfum um gagnsæi og ásýnd vegna orðsporsáhættu, sér í lagi þegar rekstaraðili sjóðsins eða aðilar honum tengdir séu einnig haghafar að fjárfestingarverkefnum. Í því felist meðal annars að í ákveðnum tilvikum verði óskað eftir utanaðkomandi greiningum á fýsileika og áhættu fjárfestinga. Stjórn Frjálsa segir ennfremur að markmið breytinganna sé að lágmarka orðsporsáhættu vegna útvistunar á rekstri sjóðsins til fjármálafyrirtækis. Þó er það afstaða stjórnar sjóðsins að umrætt rekstrarfyrirkomulag hafi átt drjúgan þátt í velgengni sjóðsins þá fjóra áratugi sem hann hefur starfað.  Þá bendir stjórn sjóðsins á að slíkt fyrirkomulag sé við líði hjá fimm öðrum lífeyrissjóðum.

„Stjórnin telur að í reynd hafi ekki skort á gagnrýna umræðu innan stjórnar í fjárfestingarferlinu. Hún gerir hins vegar ekki ágreining við FME um að hún hefði mátt taka meira tillit til þeirrar orðsporsáhættu sem fjárfestingunni var samfara og til þess að ritun fundargerða hefði mátt fanga betur umræður stjórnarfunda,“ segir einnig í tilkynningunni.