Frumvarp iðnaðarráðherra um  fjárfestingarsamning við Norðurál – Century Aluminum Corporation vegna byggingar álvers í Helguvík hefur verið afgreitt úr nefnd. Vinstri grænir leggjast gegn frumvarpinu en þingmenn Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í iðnaðarnefnd styðja það með fáeinum breytingum.

Í frumvarpinu er iðnaðarráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands heimilað að gera samning við Norðurál Helguvík ehf. og eiganda þess, Century Aluminum Company, um að reisa álver í Helguvík á Reykjanesi.

Áformað er að byggja álverið í fjórum 90.000 tonna áföngum og að ársframleiðsla þess verði allt að 360.000 tonn.

Gert er ráð fyrir að álverið taki til starfa seinni hluta árs 2011 og að starfsmenn þess verði þá 210 en verði 540 þegar álverið er fullbyggt.

Gríðarleg óvissa um verkefnið

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG í iðnaðarnefnd, segir m.a. í nefndaráliti að gríðarleg óvissa ríki um þetta verkefni. Til að mynda hafi álverð farið lækkandi á heimsvísu og álframleiðsla dregist saman.

„Verulegar efasemdir eru því um hvort réttlætanlegt sé á viðskiptalegum og þjóðhagslegum forsendum að ráðast í uppbyggingu fleiri álvera á Íslandi," segir hún m.a. í nefndarálitinu sem sjá má hér.