Útflutningsráð boðar til hópferðar á norræna fjárfestingarþingið Nordic Venture Summit sem haldið verður í Kaupmannahöfn 27. september nk. á vegum fyrirtækisins Europe Unlimited. Þar gefst íslenskum fyrirtækjum sem starfa á sviði hátækni og líftækni kostur á að finna nýtt fjármagn, nýja samstarfsaðila og stofna til alþjóðlegra sambanda, að sögn Þórhalls Ágústssonar, verkefnisstjóra hjá Útflutningsráði.

Nordic Venture Summit er sótt af mörgum af fremstu fagfjárfestum Evrópu og þátttakendur kynna fyrirtæki sín, vörur og viðskiptahugmyndir fyrir þeim með hugsanlegt samstarf í huga. ?Sjónum er beint að hinum háþróuðu líf- og hátæknigeirum sem hafa byggst upp á Norðurlöndum undanfarin ár og fjárfestar víða um heim hafa rennt hýru auga til. Samhliða þinginu fara fram fyrirlestrar og pallborðsumræður um ýmsa þætti fagfjárfestinga í hátækni og líftækni í dag. Þetta er því einstakt tækifæri til að koma á samböndum við alþjóðlega fjárfesta, ráðgjafa og aðra frumkvöðla sem eiga það sammerkt að starfa í þessum tæknigeirum. Á síðustu fjórum árum hafa 67 fyrirtæki sem kynntu sig á Europe Unlimited-þingum aflað fjármagns sem nemur samtals 234 milljónum evra eða 19,5 milljörðum íslenskra króna,? segir Þórhallur í frétt á vef Útflutningsráðs.

Þórhallur bendir á að Útflutningsráð muni styrkja áhugasöm fyrirtæki frá Íslandi til þátttöku. Allar nánari upplýsingar í síma 511 4000 eða með tölvupósti, [email protected].