Sérfræðingar telja líklegt að nokkrir stærstu fjárfestingasjóðir heims hafi áhuga á því að taka yfir danska símafyrirtækið TDC, sem sýndi Símanum áhuga þegar fyrst var reynt að einkavæða félagið árið 2001.

Markaðsvirði TDC er um níu milljarðar Bandaríkjadala. Bresku fjárfestingasjóðirnir Apax og Permira, í slagtogi við bandaríska sjóðinn Blackstone, hafa verið orðaðir við TDC. Einnig er talið að bandaríski fjárfestingasjóðurinn Providence Private Equity, sem gerði óbindandi tilboð í Símann fyrr á þessu ári, sé að vinna að tilboði í TDC.

TDC var einkavætt árið 1994. Félagið er með starfsemi víða um Evrópu og er annað stærsta símafyrirtækið í Sviss og það stærsta í Danmörku. Einnig á félagið hlut í þónokkrum fjarskiptafélögum í Norður-Evrópu og á meginlandinu.