Framboð skuldabréfa og hlutabréfa annar ekki eftirspurn og mun ekki gera það á þessu ári og á því næsta. Gert er ráð fyrir að heildareftirspurn verði um 150 milljarðar á ári ef fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna er lögð saman við þá eftirspurn sem mun myndast ef hlutfall innlána lækkar.Þetta kom fram í máli þeirra Kjartans Smára Höskuldssonar, forstöðumanns VÍB - Eignarstýringar Íslandsbanka, og Ásmundar Tryggvasonar, forstöðumanns Fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka á fjármálaþingi Íslandsbanka sem var haldið á Hilton Reykjavík Nordica.

Skráð félög í Kauphöllinni eru nú samtals 13 en árið 2000 voru 75 félög skráð. Ásmundur segist reikna með 3-4 nýskráningum á þessu ári en Eimskip og Vodafone hafa lýst því opinberlega yfir að þau stefni að skráningu í Kauphöll á þessu ári. Einnig segir Ásmundur að athyglisvert sé að skuldsetning skráðra rekstrarfélaga í kauphöllinni sé lægra en það var áður, að meðaltali tvöfaldur hagnaður fyrir afskriftir.