Samkvæmt mati greiningardeildar Arion banka er fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna í kringum 130 milljarðar króna á þessu ári. Nettó iðgjöld (iðgjöld – útgreiðslur) eru samkvæmt mati greiningardeildar í kringum 40 milljarðar,þar af nemur útgreiðsla séreignarlífeyris um 10 milljörðum króna á árinu samkvæmt mati Seðlabankans, á meðan vaxtatekjur sjóðanna nema um 90 milljörðum.

Í Markaðspunktum í dag segir að það geti verið erfitt að finna farveg fyrir 130 milljarða króna á einu ári, „í lokuðu hagkerfi þar sem hlutabréfamarkaðurinn er enn í skötulíki og almenn skuldahjöðnun ríkir“.

Glíma við lúxusvanda

Í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka segir einnig:

„Þrátt fyrir eignartap í kjölfar bankahrunsins er staða íslenskra lífeyrissjóða með ágætum, sérstaklega þegar hún er borin saman við önnur lönd. Þá kemur í ljós að lífeyrissparnaður sem hlutfall af landsframleiðslu er hér með því hæsta sem gerist. Hrein eign íslensku lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris nam 1.893 milljörðum króna í lok árs 2010 en þessi tala inniheldur hluta af séreignarlífeyrissparnaði landsmanna (þó ekki þann sem erlendir aðilar sjá um). Hrein eign lífeyrissjóðanna er því um 125% af vergri landsframleiðslu síðasta árs.“

Á árinu 2010 juku lífeyrissjóðirnir langmest við sig af ríkistryggðum skuldabréfum. Segir að verðhækkun bréfanna skýri hluta af aukningunni en mestu munar um kaup á íbúðabréfum í svokölluðum „Avens-viðskiptum“. Erlendar eignir þeirra minnkuðu að sama skapi um tæpa 60 milljarða króna. Ástæðu þess má rekja til þess að áðurnefnd kaup á íbúðabréfum voru greidd með erlendum eignum lífeyrissjóðanna.