Mallorca, eða Mæjorka eins og Íslendingar þekkja nafnið, er stærst þeirra eyja sem tilheyra Spáni. Er hún hluti af baleríska (Baleric) eyjaklasanum  í Miðjarðarhafi (Illes Balears á spænsku) og er um 150 kílómetra undan strönd Spánar. Hinar eyjarnar heita Ibiza, Formentera og Minorca. Um átta til tíu milljónir ferðamanna sækja eyjuna heim á hverju ári, en þar eru íbúar innan við 800 þúsund.

Talsvert er um fjárfestingar útlendinga á eyjunni, einkum Þjóðverja og Breta sem eiga mikinn fjölda eigna á eyjunni. Þar er bæði um að ræða einbýlishús, íbúðir, hótel og veitingastaði. Algengt er að að venjulegir eigendur húsnæðis leigi hús sín yfir mesta ferðamannatímann en dvelji svo sjálfir í þeim þess utan, en þá er allt verðlag á eyjunum líka mun skaplegra. Sagt er að Mallorka sé uppáhaldsstaður alþjóðlega þotuliðsins. Margir forríkir einstaklingar eiga líka hús og landareignir á eyjunni. Þekktar eru t.d. sögur af þýskum auðkýfingum sem þar búa og skreppa í vinnuna í Þýskalandi á einkaþotunum sínum.

Byggingarreglugerðir hafa mjög verið hertar á eyjunni og erfitt er orðið að fá þar byggingaleyfi. Líklegt er því að íbúðaverð eigi eftir að hækka umtalsvert á eyjunni á næstu árum. Þá hefur verið horfið frá þeirri stefnu að byggja þar háreistar íbúðablokkir eins og mikið var gert af á sjöunda áratugnum og þess í stað er lagt upp úr lágreistari húsum sem oftast halda þá líka í spænskan byggingastíl.

Nánar er fjallað um perluna Mallorka í helgarblaði Viðskiptablaðsins.