Heiðar Guðjónsson stofnaði Eykon Energy fyrir þremur árum ásamt Gunnlaugi Jónssyni og Terje Hagevang, en fyrirtækið stefnir að því að bora fyrstu holuna á Drekasvæðinu árið 2020. Heiðar segist skynja áhuga íslenskra fjárfesta á verkefninu. Hann útilokar ekki skráningu á markað í aðdraganda borunar en segist vilja stíga varlega til jarðar í þeim efnum.

„Þetta er nýr bransi og menn þurfa að kynna sér þetta. Þetta er áhættusamt að hluta til. Því meira sem við rannsökum því meiri verðmæt þekking skapast sem við getum alltaf selt. Síðan með borunina þá er það bara núll eða einn. Í olíuleit þar sem þú ert á nýju svæði geturðu meira en 100-faldað fjárfestinguna ef borun heppnast en þú getur líka tapað öllum peningunum“ segir Heiðar.

Heiðar segir að um sé að ræða áhættufjárfestingu og menn eigi alltaf að hafa eitthvað í áhættufjárfestingu. „Setja 10% eða 1% í áhættu ef það er skynsamlegt. Það væri óskynsamlegt ef íslenska ríkið stæði í leitinni sjálf. Það er betra að fá erlenda aðila til að gera þetta með þekkingu og reynslu og djúpa vasa. Ef við finnum síðan olíu þá fer rúmlega helmingurinn til fjármálaráðuneytisins í formi skatta þannig að sá sem græðir mest á þessu verður alltaf íslenska ríkið þótt það taki ekki áhættuna. Það er óskandi að þetta gangi,“ segir hann.

Heiðar er í ítarlegu viðtali í Frumkvöðlum, tímariti Viðskiptablaðsins, sem kom út á fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .