Árni Pétur Jónsson, sem hyggst opna sextán Dunkin' Donuts-staði hér á landi, segir fjárfestinguna við að koma stöðunum á nema um 200 milljónum króna. Þetta kemur fram í viðtali við hann í Markaðnum á Fréttablaðinu .

Þar segir Árni Pétur að stór hluti af kostnaðinum sé samningurinn við Dunkin' Donuts, uppsetning á miðlægu eldhúsi og einnig muni nokkur fjárfesting liggja í því að koma upp fyrsta kaffihúsinu með þeim tækjum og tólum sem til þurfi.

Hann segist ekki geta greint frá hvar fyrsta kaffihúsið verði starfrækt. „Venjan er að fyrsti staðurinn sé veglegt kaffihús, sjálfstætt starfandi. Okkar hugur stendur til þess að það verði í 101-hverfinu. Það er búið að bjóða okkur nokkrar staðsetningar og það er verið að vinna í að skoða það og sjá hvernig við gætum komið starfseminni þar fyrir. Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um staðsetningu en mjög líklega verður hún niðri í bæ.“