Michael Bless, forstjóri móðurfélags Norðuráls, sagði á fundi um hálfsársuppgjör félagsins í sumar að aukinn kraftur væri nú lagður í samningsviðræður tengdar Helguvík. Hann sagði að vandamálum í viðræðunum hafi fækkað og tók svo til orða að loks mætti nú sjá ljósglætu í viðræðunum.

Bless tók þó skýrt fram að geta fyrirtækisins til framkvæmda færi algerlega eftir ytri aðstæðum og þar til þær þættu góðar væri fjárfestingu í Helguvík haldið í lágmarki.

Aðspurður um þessi ummæli segir Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, þau ekki vísbendingu um að framkvæmdir við Helguvík tefjist. „Ef það klárast sem út af stendur varðandi orkumálin er enn raunhæft að framkvæmdir hefjist í vor,“ segir hann. Um þær ytri aðstæður sem Bless vísar til segir Ragnar að í sumar hafi verið uppi ýmsar dómsdagsspár um að allt færi á verri veg í Evrópu. „Sem hefur ekki gerst,“ segir hann. „En ef það gerðist þá væru allar framkvæmdir í uppnámi hvort sem það eru þessar eða aðrar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.