Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur fjárfest 250 milljónum dala, eða sem nemur 31,6 milljörðum króna, í Prime Focus samstæðunni. Novator mun eignast 15% hlut í dótturfélaginu DNEG og Björgólfur Thor Björgólfsson mun taka sæti í stjórn félagsins síðar í ár.

DNEG sérhæfir sig í tæknibrellum og tölvugrafík. Fyrirtækið hefur unnið sex Óskarsverðlaun fyrir tæknibrellur, nú síðast fyrir kvikmyndina Tenet en í frétt Hollywood. DNEG hlaut einnig Óskarinn fyrir myndirnar Inception, Interstellar, Ex Machina, Blade Runner 2049 og First Man. Fyrirtækið sá einnig um tæknibrellur fyrir væntanlegu James Bond myndina No Time to Die.

„Alþjóðlega sprengjan í eftirspurn eftir hágæða myndefni á hinum ýmsu vettvöngum hefur leitt til stórra tækifæra á fjölmiðla- og afþreyingarmörkuðum. Við teljum DNEG hafa allt sem þarf til að nýta þessi tækifæri til fullnustu. Við viljum byggja ofan á verðlauna-arfleið fyrirtækisins og við styðjum sýn Namit [Malhotra, forstjóra DNEG] til að hraða þróun DNEG frá því að vera hreinn þjónustuveitandi í framleiðanda myndefnis og tölvuleikjarisa fyrir allt vistkerfið,“ er haft eftir Bjögólfi Thor í tilkynningu .

Malhotra, forstjóri DNEG, segir að hann hafi aldrei áður upplifað jafn mikla eftirspurn eftir þjónustu fyrirtækisins á sínum 25 ára ferli.