Olíusjóður Noregs hefur fjárfest í fyrsta sinn í innviðum fyrir endurnýjanlega orku. Sjóðurinn tilkynnti í gær að hann myndi greiða 1,4 milljarða evra, eða um 206 milljarða íslenskra króna, fyrir 50% hlut í hollensku vindorkuveri úti á sjó sem eru í eigu danska orkufyrirtækisins Örsted sem mun áfram sjá um reksturinn.

Norsk stjórnvöld hafa gefið olíusjóðnum fyrirmæli um að fjárfesta allt að 120 milljörðum norskra króna, eða um 1.800 milljarða íslenskra króna, í endurnýjanlegum orkugjöfum. Það samsvarar um 2% af heildareignum sjóðsins. Olíusjóðurinn hyggst verða einn stærsti fjárfestir heims á þessu sviði en draga úr vægi verðbréfa og fasteigna í eignasafni sínu.

Sjóðurinn hefur haft heimild til að fjárfesta í vind- og sólarorkuverkefnum frá byrjun síðasta árs. Mie Holstad, forstjóri eignastýringar hjá sjóðnum, segir að sjóðurinn hafi skoðað átta möguleg verkefni á síðasta ári. Sjóðurinn tók þátt í einu útboði en endaði á að draga sig úr því, að því er kemur fram í frétt Financial Times .

Olíusjóðurinn tók sérstaklega fram að hann væri að leita að eignum sem draga úr áhættu vegna orkuverðs, gera sjóðsstreymið stöðugra ásamt því að takmarka áhættu á höfuðfjárfestingunni.

Sjóðurinn, sem heitir formlega Eftirlaunasjóður norska ríkisins, hefur frá árinu 1996 haldið utan um tekjur norska ríkisins af olíuvinnslu. Þjóðarsjóðurinn átti lengi vel einungis skráð verðbréf en á síðastliðnum áratug hefur hann einnig orðið einn stærsti fasteignafjárfestir í heiminum. Sjóðurinn á í dag stórt magn af fyrsta flokks fasteignum í borgum líkt og London, New York og Tókýó.