Litháíska netöryggisfyrirtækið Nord Security safnaði 100 milljónum dala, eða um 13 milljörðum króna, í fjármögnunarumferð sem fram fór á dögunum. Í kjölfar þessa er félagið metið á 1,6 milljarða dala og er þar með orðinn annar tækni-einhyrningur í sögu Litháens. Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, var meðal fjárfesta sem tóku þátt í fjármögnunarumferðinni. CNBC greinir frá.

Til að falla í flokk einhyrninga þarf félag að vera metið á 1 milljarð dala eða meira.

Nord Security er best þekkt fyrir VPN vörur sínar og kostar áskrift að þjónustu félagsins 12 dali á mánuði eða sem nemur 140 dölum á ári. VPN (e. virtual private networks) gerir fólki m.a. kleift að komast inn á bannaðar vefsíður eða -þjónustur.

Félagið var stofnað árið 2012 í höfuðborg Litháen Vilníus og starfa í dag um 1.700 manns hjá því, auk þess sem stefnt er á að ráða 200 til viðbótar á næstunni.

Auk Novator tóku Burda Principal Investments, General Catalyst og aðrir englafjárfestar þátt í fjármögnunarumferðinni. Á meðal englafjárfestanna sem tóku þátt voru stofnendur netmarkaðstorgsins Vinted, þar sem notuð föt eru seld. Umrætt félag er einmitt fyrsti tæknieinhyrningur í sögu Litháens.

Í samtali við CNBC segir Tom Okman, forstjóri Nord Security, að fjármögnunin muni hjálpa félaginu að dreifa þjónustu sinni víðar um heiminn, en í dag er þjónusta þess aðgengileg í 20 löndum. Jafnframt muni fjármagnið nýtast til vöruþróunar.