Franskur fjárfestir, Rene-Thierry Magon de la Villehuchet, sem fjárfest hafði um 1,4 milljarða Bandaríkjadala í svikamyllu Bernard Madoff svipti sig lífi í gær, 65 ára að aldri.

Að sögn lögreglunnar í New York fannst Villehuchet við skrifborð sitt eftir að hafa tekið eigið líf.

Bernard Madoff er sakaður um að hafa svikið út um 50 milljarða dali með svokallaðri Ponzi svikamyllu.

Að sögn franska blaðsins La Tribune er Villehuchet sagður hafa farið mjög illa út úr svikamyllu Madoff. Þannig mun Villehuchet hafa unnið dag og nótt síðustu vikur til að reyna að endurheimta fé sitt að sögn blaðsins.

Eignir Madoff hafa nú verið frystar í Bandaríkjunum og hann situr nú í stofufangelsi.