Bandaríski vogunarsjóðsstjórinn Daniel Loeb segir uppboðshúsið Sotheby's vera að heltast úr lestinni á markaðnum og hefur hann þrýst á að forstjóranum William Ruprecht verði sparkað. Loeb, sem er heimsþekktur í hópi fjárfesta, brigslar Ruprecht um að lifa í fortíðinni, hann hafi ekki tileinkað sér nútímalega hætti bæði í stjórnun og rekstri fyrirtækja.

Vogunarsjóðurinn sem Loeb stýrir, Third Point, er stærsti hluthafi Sotheby's með 9,3% hlut. Loeb krefst þess m.a. að stjórn uppboðshússins grípi til aðgerða til að skila hluthöfum arði af rekstrinum og hefur hann sjálfur sóst eftir stjórnarsetu. Bandaríska dagblaðið The New York Times segir Loeb hafi ekki líkað við uppgjör uppboðshússins í samanburði við Christie's. Hann hafi m.a. sérstaka athugasemd við bónusgreiðslur til Ruprecht upp á 6,3 milljónir dala í fyrra. Engar forsendur eru fyrir bónusgreiðslum, að mati Loeb.

Stjórnum fyrirtækja getur þótt Loeb sem hluthafi erfiður ljár í þúfu. Sjóður hans átti t.d. stóran hlut í bandaríska tæknirisanum Apple. Í september í fyrra stóð gengi hlutabréfa Apple í methæðum, rúmum 705 dölum á hlut. Sjóður Loebs átti á sama tíma 710 þúsund hluti í fyrirtækinu. Loeb lýsti því hins vegar yfir nokkru fyrir síðustu áramót að samkeppnin gæti komið niður á Apple. Gengi bréfa Apple hafði þá fallið um 24% frá hæsta gengi í september. Við bættist 12% lækkun fram í febrúar á þessu ári.

Reuters-fréttastofan greindi svo frá því i febrúar að nokkrir sjóðir hafi selt eignir sínar. Þar á meðal var sjóður Loebs.