Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Festa lífeyrissjóður og Eftirlaunasjóður íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA) fjárfestu í United Silicon fyrir tæpa 2,2 milljarða íslenskra króna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn lagði 1.178 milljónir til fyrirtækisins. Samkvæmt skriflegu svari sjóðsins til Morgunblaðsins skiptist jafnt milli hlutabréfa og skuldabréfa. Festa lífeyrissjóður fjárfesti fyrir 875 milljónir og þar af var 251 milljón í hlutafé. EFÍA lagði til 113 milljónir og skiptist sú fjárfesting milli hluta- og skuldabréfa.

Eins og greint hefur verið frá fékk United Silicon heildild til greiðslustöðvunar á mánudag til að freista þess að ná bindandi nauðasamningum við lánardrottna. Ákvörðun félagsins um að óska eftir greiðslustöðvun kom í kjölfarið á erfiðleikum í rekstri kísilmálmverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík sem rekja má til síendurtekinna bilana í búnaði sem valdið hafa félaginu miklu tjóni.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu kom fram að „Hluthafar hafa frá því verksmiðjan tók til starfa lagt félaginu til viðbótarhlutafé til að fjármagna reksturinn og endurbætur á búnaði og almennri aðstöðu fyrir starfsfólk."

Í gær var greint frá því að Festa lífeyrissjóður og Frjálsi lífeyrissjóðurinn höfðu lagt 433 milljónir króna til hlutafjáraukningar félagsins í apríl síðastliðnum. Stofnaður var C-flokkur hlutafjár fyrir viðbótarhlutaféð. Veitir sá flokkur tvö atkvæði á hvern hluthafa á meðan eitt atkvæði er á hvern í A- og B-flokki.