Fjárfestingar Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. á Bíldudal námu um 500 milljónum króna á síðasta ári en framkvæmdir við stækkun verksmiðjunnar hófust árið 2012 og lýkur á næstu misserum að því er fram kemur í tilkynningu.

Verksmiðjan, sem er í eigu írska félagsins Celtic Sea Minerals Ltd., hefur leyfi til að framleiða allt að 50 þúsund tonn af kalkþörungum á ári. Hráefnið er sótt í Arnarfjörð. Um 99% framleiðslunnar eru seld á erlendum mörkuðum, einkum í Miðausturlöndum, Frakklandi og Bretlandi.

Íslenska kalkþörungafélagið er fjölmennasti vinnustaðurinn á Bíldudal en í fyrra greiddi fyrirtækið um 120 milljónir í laun og launatengd gjöld. Fyrirtækið er enn fremur einn stærsti kaupandi raforku hjá Orkubúi Vestfjarða og kaupir árlega um 10% þeirrar raforku sem notuð er á Vestfjörðum.