Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar segir erfitt að henda reiður á hvað valdi því að verð á gistingu hér á landi hækki meira en sem nemur styrkingu krónunnar eins og greiningardeildir bankanna hafa bent á að undanförnu.

„Hægt er að benda á að mikil uppbygging hefur verið í gistiþjónustu um land allt þar sem ný og betri herbergi hafa verið að koma inn á markaðinn. Þetta eru herbergi í hærri gæðaflokki sem kosta að sama skapi meira,“ segir Skapti Örn í samtali við Morgunblaðið.

„Þá hafa orðið miklar launahækkanir á tímabilinu, en ferðaþjónustan er mannaflsfrek atvinnugrein og launakostnaður vegur þungt í rekstri hótela og gistiheimila. Eins hafa fyrirtæki í ferðaþjónustu fjárfest mikið á tímabilinu til að mæta þeirri fjölgun ferðamanna sem orðið hefur með tilheyrandi hækkun á fjármagnskostnaði.

Á síðasta ári nam fjárfesting fyrirtækja í ferðaþjónustu þannig rúmlega 100 milljörðum króna með tilheyrandi útlánaaukningu. Jafnframt má benda á að húsaleiga hefur hækkað ásamt því að aðföng til hótela og gistiheimila hafa ekki lækkað í takt við styrkingu krónunnar.“