*

sunnudagur, 19. september 2021
Innlent 4. ágúst 2021 14:14

Fjárfestu milljarði í Kviku og Icelandair

Félag eigenda heildsölunnar Johan Rönning keypti hlutabréf í Kviku og Icelandair fyrir ríflega 700 milljónir króna í síðasta mánuði.

Snær Snæbjörnsson
Bogi Þór Siguroddsson, stjórnarformaður Johan Rönning.
Eyþór Árnason

Eignarhaldsfélagið Bóksal jók hlut sinn til muna í Icelandair og Kviku banka í síðasta mánuði samkvæmt hluthafalista félaganna. Eigendur Bóksals eru hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Björk Ólafsdóttir en þau eru einnig eigendur heildsölunnar Johan Rönning.

Bóksal keypti um 25,6 milljónir hluta í Kviku banka en kaupverðið hefur líklega verið í kringum 595 til 625 milljónir króna sé miðað við lægsta og hæsta dagslokagengi bréfanna í síðasta mánuði. Félagið keypti um 83,2 milljónir hluta í Icelandair fyrir um 120 til 140 milljónir króna.  

Bóksal á í heildina um 109,2 milljónir hluti í Kviku að nafnvirði um 2.621 milljónum króna sé miðað við núverandi gengi og 689 milljón hluti í Icelandair að nafnvirði um 1.047 milljónum króna.

Bóksal er 10. stærsti hluthafi Kviku með 2,3% hlut en það var áður 15. stærsti hluthafi félagsins. Bóksal er 7. stærsti hluthafi Icelandair en það var áður 5. stærsti hluthafi þess en fellur niður um tvö sæti með tilkomu Bain Capital og auknum hlut Íslandsbanka í félaginu.