Eignarhaldsfélagið Brekka Retail, sem stofnað var af fjárfestinum Þórði Má Jóhannessyni árið 2013, seldi nýtt hlutafé fyrir 349,5 milljónir króna á síðasta ári. Hið nýja hlutafé, ásamt skammtímaláni upp á 293 milljónir, var notað til að fjármagna kaup Brekku Retail á 6,5% hlut í Festi hf. sem áttu sér stað í fyrra.

Áður en hlutafjáraukning Brekku Retail átti sér stað var Fjárfestingarfélagið Brekka eigandi alls hlutafjár í Brekku Retail. Fjárfestingarfélagið Brekka var að fullu í eigu Þórðar Más í lok síðasta árs samkvæmt ársreikningi félagsins. Hið nýja hlutafé í Brekku Retail kom úr þremur áttum. Í fyrsta lagi kom Þórður Már sjálfur inn með nýtt hlutafé, í öðru lagi keypti Meroa ehf. 25,6% hlut og í þriðja lagi varð eignarhaldsfélagið Brekkuás eigandi tíu prósenta eignarhlutar í Brekku Retail.

Stofnuðu Gnúp saman

Eigendahópur Meroa samanstendur af þeim Kristni Björnssyni og Þórði Haraldssyni, eigenda Líflands, ásamt fjölskyldu Kristins. Á árunum 2004-2006 var Kristinn einn eigenda Straums fjárfestingarbanka og stjórnarmaður í bankanum, en á sama tíma var Þórður Már forstjóri Straums.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .