Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra seg­ir að fjár­fest­ar sem komi með gjald­eyri til lands­ins geri það vegna þess að þeim lít­ist vel á efna­hagsaðstæður á Íslandi og þeir fái ágæta vexti á fjár­magn sitt. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Þetta séu ekki ein­göngu skamm­tíma­fjár­fest­ar, held­ur einnig fjár­fest­ar sem séu að dreifa sínu eigna­safni og hugsi til lengri tíma. Þeir hafi þess vegna trú á því að krón­an geti jafn­vel styrkst við hafta­af­námið enda séu eng­in teikn á lofti um að krón­an sé að fara að veikj­ast. „Með góðum vöxt­um og í styrk­ing­ar­fasa er Ísland bara nokkuð áhuga­verður fjár­fest­inga­kost­ur,“ seg­ir Bjarni.

„Að mörgu leyti eru kjöraðstæður nú til þess að taka stór skref varðandi það að hleypa öðrum fjár­fest­um út, eins og líf­eyr­is­sjóðunum,“ seg­ir hann enn­frem­ur.

Í nýútkominni yfirlýsingu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðu efnahagsmála hérlendis segir að þensla í hagkerfinu kalli á aukið aðhald peningastefnu og þrátt fyrir andstöðu úr ýmsum áttum sé fyllilega réttmætt að seðlabankinn hækki vexti enn frekar. Það muni festa trúverðuleika Seðlabankans enn frekar í sessi.