Byggðastofnun fékk í gær afhent 3,6 milljarða króna eiginfjárframlag frá ríkissjóði. Framlagið er í formi ríkisskuldabréfa. Eiginfjárhlutfall Byggðastofnunar í árslok 2009 var 4,92% en á að lágmarki að vera 8% samkvæmt lögum. Framlagið nú er liður í að bregðast við þessu lága eiginfjárhlutfalli.

Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, segir að hlutfallið eftir fjárframlag verði líklega um 9-10% en telur að það þurfi að vera hærra í því árferði sem er ríkir. „Ég hef lýst þeirri skoðun minni að ég tel að hlutfallið þurfi að vera hærra. Ef miðað er við endurreisn banka og sparisjóða og framlag ríkisins til þeirra þá er talað um að eiginfjárhlutfallið eigi að vera á bilinu 14-20%. Það var rökstutt með því að nú væru miklir óvissutímar. Ég er ekki viss um að 9-10% dugar í árferði sem þessu, mér finnst það í tæpara lagi. “ Aðalsteinn segir einnig að þetta viti eigandi stofnunarinnar, íslenska ríkið, og að ef slík lánastarfsemi á að halda áfram verður að starfa eftir reglum um fjármálafyrirtæki.